Það var þann 18. ágúst 1984 sem Héraðsskjalasafn Siglufjarðar var stofnað. Þá var Óli Blöndal starfandi bókavörður og var það fyrir atbeina hans sem farið var í að leita leiða til að hægt væri að stofna héraðsskjalasafn á Siglufirði. Aðdragandinn var nokkuð langur því það var árið 1977 sem bókasafnsstjórnin sem Þ. Ragnar Jónasson var í forsvari fyrir, ritaði bréf til Bæjarstjórnar Siglufjarðar og óskaði eftir viðbótarhúsnæði fyrir minningarstofu um séra Bjarna Þorsteinsson og skjalasafn einnig. Bæjarstórninn tók vel í þetta og var helmingur af annarri hæð ráðhússins látin í té. Með tilkomu héraðsskjalasafnsins var tryggt að miklar og sögulegar heimildir glötuðust ekki. Hafin var skipulögð leit árið 1978 undir stjórn Frosta Jóhannsonar þjóðháttarfræðings, í öllum bröggum og gömlum húsum. Verslunarbækur og og önnur gögn komu fram í dagsljósið og eru öll þessi gögn skráð í dag. Það var svo við sameiningu kaupstaðanna Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem héraðsskjalasafn Fjallabyggðar varð til.